<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Nonni og Manni fara á sjó

Gyða og Flemming gáfu drengjunum fagurlega myndskreytta bók um Nonna og Manna og einnig hljóðbók með sama efni, hljóðbók sem er reyndar alveg kostuglega gamaldags lesin.

Eitthvað eru ritgerðarsmíðarnar farnar að hlaupa með minn mann í gönur, því að Jón stakk núna áðan upp á titlinum Nonni og Manni fara á fyllerí, síðan kæmi bókin Nonni og Manni fara á kvennafar og að lokum Nonni og Manni fara á Vog.

Manni finnst þetta eiginlega nálgast guðlast...samt fannst mér Nonnabækurnar alltaf hundleiðinlegar og vildi frekar lesa Línu langsokk.

þriðjudagur, júní 28, 2005

Íslands óhamingja

Það er fátt sem ég þoli verr en öskrandi börn, ekki síður þegar þau eru mín eigin.

Jói litli er ósköp þreyttur eftir langan og erfiðan dag í skólanum og er með allt á hornum sér núna, volar og vælir yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Valgarður er sko ekki lengi að finna auman blett á bróður sínum og tók að kalla hann múmínsnáða, sem lagðist ekki vel í minn mann.

,Mamma,' sagði sá stutti við mig óðamála og í klögunartón, ,Valli er að kalla mig múmínsnáða!'

,Íslands óhamingju verður allt að vopni,' svaraði ég.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Blessuð börnin

Það kom náttúrlega í ljós það sem ég hef alltaf vitað, að Valli er ekki einhverfur eins og fíflin á greiningarstöðinni heima héldu (aldrei hlusta á foreldrana, þeir vita ekkert hvað þeir eru að tala um). Ekki alveg jafnvitlausir læknarnir hérna úti í Bretlandi. Enda gengur stráknum bara vel í skóla.

Jói er skýr og sérdeilis skemmtilegur strákur, svona þegar hann er ekki önugur og öfugsnúinn. Ég fór með þá bræður í hjólatúr um daginn, reimaði á mig hlaupaskóna þar sem pabbi þeirra var lasinn og fór með þá út.

'Hvar er hjólið þitt, mamma? spurði Jói.

'Ég á ekkert hjól, ástin mín,' svaraði ég.

'Þá hjólarðu bara á hjólinu hans pabba.'

'Nei, ég get ekki hjólað.'

'En þá þarftu bara hjálpardekk eins og ég!'

Þetta þóttu Jóa merkileg tíðindi, að mömmur gætu ekki hjólað. Hann fór að sjálfsögðu að velta fyrir sér hvort að mömmur gætu almennt ekki hjólað eða hvort það væri bara ég.

Svo að í kvöld varð ég að útskýra fyrir honum að mamma hefði lent í slysi þegar hún var pínulítil og að eftir það gæti hún ekki hjólað (alltaf gaman að tala um sjálfan sig í þriðju persónu).

Ég er ekki alveg viss um að hann hafi meðtekið það.

mánudagur, júní 07, 2004

Eitt fynd fyrir Valla

Í morgun fór ég með hann Valgarð son minn upp á Greiningamiðstöð í áframhaldandi greiningu. Þar töluðum við við barnasálfræðing, sem lagði alls konar púsl og þrautir fyrir drenginn, sem hann leysti sumar hverjar eins og skot, á meðan aðrar urðu til þess að áhuginn fór út og suður og allir litir urðu gulbláir eða blábleikir.

'Hvað vantar á myndina?' spurði sálfræðingurinn og sýndi honum mynd af þremur blómum í vasa. Á eitt blómið vantaði stilkinn.

'Það vantar rófuna á blómið!' sagði Valli hástöfum.

Þá byrjaði ég að flissa og er ekki enn hætt...

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Tjaldurinn kominn?

Pabbi gamli var að undirbúa kvöldlestur fyrir litla menn. Núna erum við að lesa þá snilldarsögu Pípuhatt galdrakarlsins eftir elskuna hana Tove Janson. Jói er ægilega spenntur fyrir hinum myrku og dularfullu myndum sem leynast í þeirri bók.

'Pabbi, hvar er tjaldurinn?'

'Tjaldur? Það er enginn tjaldur í þessari bók.'

Jú, tjaldurinn sem múmínfjölskyldan býr í á eyðieyjunni!'

Obboslega er gaman að fylgjast með málþroska barna. Núna þurfum við að finna til myndir af tjaldi - fuglinum, sko - handa honum að skoða.

sunnudagur, nóvember 02, 2003

Jói fann gamalt jólakort sem spilar jólalög og sat lengi með það og skoðaði í bak og fyrir. Þegar ég var orðin leið á þessu jólagauli sagði ég:

'Jói minn, jólin eru nú ekki alveg komin!'

'Þau eru það bara víst!!' svaraði Valli fyrir hönd bróður síns, sem horfði bara opinmynntur á okkur.

Ef eitthvað er að marka Kringluna og Amazon.com þá er stutt í jólin, bara jólaskreytingar komnar upp í lok október (ekki seinna vænna) og farið að reka á eftir manni að uppfæra óskalistann sinn (eins og það lesi hann nokkur maður).

Ég segi nú bara eins og hann Sigurður stjúpi minn, Hvað gengur á?!

sunnudagur, október 26, 2003

Hún Hallveig segir frá fyndna barninu á blogginu sínu. Ég er einnig þeirrar gæfu aðnjótandi að búa með fyndnu barni, reydnar tveimur, en þeir hafa sinn háttinn hvor á fyndninni.

Jói litli meiddi sig gífurlega í tánni í dag, rétt eftir að hann var kominn úr baði. Eins og góð mamma kyssti ég bágtið í bak og fyrir.

'Á ég að kyssa allar tærnar?'

Tárvot blá augu horfðu sorgbitin upp á mig. 'Nei.'

'En manstu þegar þú varst pínulítill og þér fannst svo gaman þegar mamma kyssti allar tærnar þínar?'

'En ég er ekki lítill lengur. Ég er stór!' sagði litli drengurinn minn og það fóru viprur um munnvikin.

'Nú jæja, þá kyssi ég þig bara hérna,' sagði ég og kyssti hann á augnlokin.

En þá kom bara ný skeifa og stærri. 'Ekki kyssa augun mín, ekki kyssa bláu augun mín!'

Svo ég fór bara að syngja, söng fyrir hann Bláu augun hann Gunnars Þórðarsonar.

'Ekki segja þetta!' mótmælti Jói, en þar sem hann er með eindæmum söngelskur, drengurinn, þá fékk ég nú að klára lagið og skömmu síðar var allt komið í stakasta lag.

Stuttu seinna sagði hann við pabba sinn, 'Pabbi, þú verður að halda á mér, ég meiddi mig í tánni og ég get ekki gengið á gólfinu.'

Við fengum líka að heyra að 'mér er illt í maganum af því að ég er með svo stóra bumbu!'

This page is powered by Blogger. Isn't yours?