<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 07, 2005

Blessuð börnin

Það kom náttúrlega í ljós það sem ég hef alltaf vitað, að Valli er ekki einhverfur eins og fíflin á greiningarstöðinni heima héldu (aldrei hlusta á foreldrana, þeir vita ekkert hvað þeir eru að tala um). Ekki alveg jafnvitlausir læknarnir hérna úti í Bretlandi. Enda gengur stráknum bara vel í skóla.

Jói er skýr og sérdeilis skemmtilegur strákur, svona þegar hann er ekki önugur og öfugsnúinn. Ég fór með þá bræður í hjólatúr um daginn, reimaði á mig hlaupaskóna þar sem pabbi þeirra var lasinn og fór með þá út.

'Hvar er hjólið þitt, mamma? spurði Jói.

'Ég á ekkert hjól, ástin mín,' svaraði ég.

'Þá hjólarðu bara á hjólinu hans pabba.'

'Nei, ég get ekki hjólað.'

'En þá þarftu bara hjálpardekk eins og ég!'

Þetta þóttu Jóa merkileg tíðindi, að mömmur gætu ekki hjólað. Hann fór að sjálfsögðu að velta fyrir sér hvort að mömmur gætu almennt ekki hjólað eða hvort það væri bara ég.

Svo að í kvöld varð ég að útskýra fyrir honum að mamma hefði lent í slysi þegar hún var pínulítil og að eftir það gæti hún ekki hjólað (alltaf gaman að tala um sjálfan sig í þriðju persónu).

Ég er ekki alveg viss um að hann hafi meðtekið það.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?