<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Eitthvað vorum við Valli litli að raula af Hrekkjusvínaplötunni hjá mömmu í gær, ekki man ég þó nákvæmlega hvað.

Allt í einu gellur við í þeirri gömlu:

'Ertu að kenna börnunum verkalýðssöngva?!'

Og mér fannst sem ég heyrði hana ömmu mína sáluga segja hvasst við hana móður mína hér í den:

'Læturðu barnið ganga í rauðum sokkum?!'

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Bræður munu berjast

Af hverju þurfa litlir drengir alltaf að vera að slást? Og af hverju getur hann Jóhann ekki varist árásum bróður síns, í stað þess að rúlla sér upp í kúlu eins og múrmeldýr og bíða þess sem verða vill?

'Mamma, mamma, Valli var að slá mig í hausinn!'

'Valgarður, biddu hann bróður þinn afsökunar!'

'Nei.'

Sama ferli endurtekið tíu þúsund sinnum á dag.

mánudagur, júlí 21, 2003

Hér á heimili er rökrætt þessa dagana hvort horfa eigi á Tuma, skrítna Tuma (á ensku), Pétur Pan eða Múmínálfana, þó að mamma vildi helst af öllu hlusta á Hrekkjusvínin.

'Nei, ekki Hekkjusínin, baða Pétu Pan!'

Bannsettur Pétur Pan. Ég er farin að naga sjálfa mig í handabökin yfir að hafa komið með þessa spólu inn á heimilið, fulla af gamaldags kynjahugmyndum og karlrembu.

Það minnir mig reyndar á það þegar ég var lítil og lasin og hún móðir mín elskuleg fékk lækni til okkar eitt kvöldið að líta á litla sjúklinginn. Ég rak upp stór augu. Gat kona verið læknir? Vá...

Vonandi hafa tímarnir eitthvað breyst síðan þá...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?