<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, október 26, 2003

Hún Hallveig segir frá fyndna barninu á blogginu sínu. Ég er einnig þeirrar gæfu aðnjótandi að búa með fyndnu barni, reydnar tveimur, en þeir hafa sinn háttinn hvor á fyndninni.

Jói litli meiddi sig gífurlega í tánni í dag, rétt eftir að hann var kominn úr baði. Eins og góð mamma kyssti ég bágtið í bak og fyrir.

'Á ég að kyssa allar tærnar?'

Tárvot blá augu horfðu sorgbitin upp á mig. 'Nei.'

'En manstu þegar þú varst pínulítill og þér fannst svo gaman þegar mamma kyssti allar tærnar þínar?'

'En ég er ekki lítill lengur. Ég er stór!' sagði litli drengurinn minn og það fóru viprur um munnvikin.

'Nú jæja, þá kyssi ég þig bara hérna,' sagði ég og kyssti hann á augnlokin.

En þá kom bara ný skeifa og stærri. 'Ekki kyssa augun mín, ekki kyssa bláu augun mín!'

Svo ég fór bara að syngja, söng fyrir hann Bláu augun hann Gunnars Þórðarsonar.

'Ekki segja þetta!' mótmælti Jói, en þar sem hann er með eindæmum söngelskur, drengurinn, þá fékk ég nú að klára lagið og skömmu síðar var allt komið í stakasta lag.

Stuttu seinna sagði hann við pabba sinn, 'Pabbi, þú verður að halda á mér, ég meiddi mig í tánni og ég get ekki gengið á gólfinu.'

Við fengum líka að heyra að 'mér er illt í maganum af því að ég er með svo stóra bumbu!'

This page is powered by Blogger. Isn't yours?